149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég velti fyrir mér hvort það sé merki um hraðann sem virðist vera á málinu, kæruleysi, ábyrgðarleysi, að koma ekki fram með neitt mat á áhrifum, sem hv. þingmaður nefndi hér, á gengi krónunnar. Ef við trúum því að þetta geti haft þau neikvæðu áhrif sem hv. þingmaður nefnir velti ég því fyrir mér hvort ástæða sé til að upplýsa eða í það minnsta að fara yfir málið með aðilum vinnumarkaðarins til að gera þeim grein fyrir mögulegum afleiðingum þess verði versta sviðsmyndin sem orðið getur að veruleika. Auðvitað vantar að menn teikni upp ákveðnar myndir af því hvaða áhrif þetta getur haft. Þess vegna velti ég því upp við hv. þingmann hvort það sé í fyrsta lagi ábyrgðarleysi að kanna þetta ekki og hvort ástæða sé til að upplýsa aðila vinnumarkaðarins um málið.