149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að full ástæða sé til þess að gera aðilum vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingunni, grein fyrir því að þetta gæti gerst verði þetta frumvarp, sem hefur fengið allt of litla athygli, að lögum. Því var hálfpartinn laumað hér inn og framsögumaður lét sig hverfa um leið og hann hafði lokið ræðu sinni.

Eins og ég rakti hér áðan mun þetta geta breytt stöðunni verulega ef verðbólgan fer af stað, gengi krónunnar fellur, matvara og annað slíkt hækkar í verði, lán landsmanna o.s.frv. Jú, það má eiginlega orða það þannig að þarna sé ákveðið kæruleysi í gangi sem maður áttar sig ekki alveg á. Hvers vegna er verið að koma með þetta með þessum hraða inn og geta síðan ekki rökstutt svona grundvallarspurningar og svarað þeim?