149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er honum hjartanlega sammála með það að þessar auglýsingar og þessi tilraun til að hafa áhrif á úrslit kosninga á Íslandi er einsdæmi. Ósvífnin er alger vegna þess að eins og hv. þingmaður nefndi hér þá hefur vaninn verið sá, ef það má orða það þannig, í þessum efnum hjá ríkjum eins og Rússlandi sem hafa reynt að hafa áhrif á kosningar í erlendum ríkjum — það er staðreynd og það er búið að rannsaka þau mál — að reynt hefur verið að fela slóðina. Rússar, enn þann dag í dag, neita algerlega að hafa haft afskipti af kosningum t.d. í Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar. Hér stöndum við frammi fyrir því að reynt er að hafa áhrif á niðurstöður kosninga á Íslandi fyrir algerlega opnum tjöldum.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni með það að vissulega hefði átt að rannsaka þetta mál. Það fékk að mínum dómi allt of litla athygli á þessum tíma miðað við alvarleika þess. Það sýnir einfaldlega að þessir aðilar, vogunarsjóðirnir, hagsmunagæsluaðilarnir, svífast einskis í þessum efnum og að þeir beittu aðferðum til að gera íslensk stjórnvöld á þessum tíma tortryggileg. Við því átti auðvitað að bregðast með staðfestu og hörku og rannsaka málið til hlítar vegna þess að það hafði áhrif, það er alveg klárt mál. Þarna er farið með staðlausa stafi og rangfærslur og ég rakti eina af þessum auglýsingum þessara aðila í fyrri ræðu minni. Nú stöndum við frammi fyrir því (Forseti hringir.) að það á að gefa eftir gagnvart þessum sömu aðilum. Það finnst mér afleitt.