149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég geri mér ekki miklar vonir um að frumvarpið verði ekki samþykkt. Við sjáum að stjórnarmeirihlutinn ætlar sér að keyra málið í gegn og í krafti meiri hlutans mun þeim eflaust takast að gera það. Ég verð að segja að það er að sjálfsögðu á ábyrgð þeirra að koma með þetta mál hér inn. Verði frumvarpið að lögum er að mínum dómi veruleg hætta á því að það geti haft áhrif á stöðu efnahagsmála og stöðu kjaraviðræðna o.s.frv., sem er þá á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Ég held að ég svari spurningunni því á þann veg að ég held að þeim muni takast að koma málinu í gegn í krafti meiri hlutans.

Við höfum verið að reyna að fá fram allar upplýsingar. Enginn úr stjórnarmeirihlutanum hefur viljað koma inn í umræðuna. Annaðhvort eru þau áhugalaus um málið eða hafa ekki mikinn áhuga á því að fá svör við mikilvægum grundvallarspurningum. Það vekur náttúrlega undrun að ákveðnir stjórnmálaflokkar skuli ekki hafa nokkurn áhuga á því að taka þátt í umræðunni. Ég nefni t.d. Samfylkinguna sem, eins og ég sagði fyrr í ræðu, hefur gefið sig út fyrir að vera sérstakur talsmaður launamanna í landinu. Formaður Samfylkingarinnar hefur haldið miklar ræður hér um stöðu kjaraviðræðna og það hvernig komið er fram við verkafólk í landinu en hann hefur engan áhuga á að taka þátt í umræðu um mál sem getur haft veruleg áhrif á kjör almennings í landinu, það er bara þannig. Það vekur að sjálfsögðu spurningar um það hver tilgangurinn er.