149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hér í hliðarherbergi og í salnum á meðan ræður hafa verið í gangi, hafa stjórnarliðar, sem skotist hafa inn örskotsstund, ekki sagt það beint með frammíköllum við ræðumann hverju sinni, heldur við okkur Miðflokksfólk sem sitjum hér í salnum, að svörin við þeim spurningum sem við teljum okkur þurfa að fá svör við fáum við bara með því að lesa frumvarpið eða nefndarálitið. Ég verð bara að vísa því algerlega til föðurhúsanna að þessi tvö plögg veiti okkur þær upplýsingar sem við höfum verið að kalla eftir í dag. Í frumvarpstextanum sjálfum er kafli í greinargerðinni, 2. kafli, sem ber yfirskriftina „Tilefni og nauðsyn lagasetningar“. Þar er á tveimur síðum farið með sögulegum hætti í gegnum þá þróun hvernig gefið var jafnt og þétt eftir gagnvart kröfum mótaðilans. Það er ein málsgrein sem má heimfæra á að einhvern tímann yrði eitthvað gert í þessum efnum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum tóku gildi var fyrirséð að þær takmarkanir sem lögin kváðu á um yrðu tímabundnar ráðstafanir og að stjórnvöld myndu aflétta þeim þegar aðstæður leyfðu.“

Gott og vel. Þetta er bara eðlilegur texti og ég geri engar athugasemdir við hann. En það er nú allt og sumt sem hönd á festir varðandi það hvers vegna þessi aðgerð er í gangi. Það er ekkert um af hverju hún er nauðsynleg núna. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem segir þarna: „… og að stjórnvöld myndu aflétta þeim þegar aðstæður leyfðu“. Þegar við setjum þennan setningarbút í samhengi við afstöðu Seðlabankans sem fram kemur í umsögn bankans og vísað er til í nefndaráliti með breytingartillögu, þar sem er alltumlykjandi að allt verði í hers höndum nema málið klárist og verði afgreitt í fyrradag, sem nú er orðið, því að í dag erum við komin inn í 27. febrúar. Seðlabankinn hafði þá skoðun að yrði þetta mál ekki klárað hinn 25. febrúar væri voðinn vís.

Það er ekkert í gögnum málsins og það er ekkert í þessum tveimur ræðum, sem annars vegar hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar hv. þm. Óli Björn Kárason fluttu — nú er ég búinn að lesa þær báðar mér til upprifjunar — og það er ekkert í þeim tveimur plöggum sem hér liggja fyrir sem útskýrir fyrir okkur hvers vegna asinn er svona mikill núna, með hvaða rökum menn ákveða að sveigja af leið með þeim hætti að uppgjöfin er algjör. Það er ekkert í rauninni sem færir okkur neitt í hendur til að við getum áttað okkur á því hvers vegna í ósköpunum við stöndum hérna klukkan að verða tvö að nóttu til og búnir að biðja um það á hverjum klukkutíma síðan um fjögurleytið í dag að einhverjir stjórnarliðar mæti á svæðið og fari yfir þessi atriði með okkur. Við fáum ekkert annað en einhvern hálfgerðan skæting um að við getum bara lesið greinargerðina með frumvarpinu eða nefndarálitið.

Svörin við þessum spurningum eru bara ekkert í þessum tveimur plöggum. Ég vorkenni stjórnarliðum ekki neitt að eiga hér orðastað við okkur og fara yfir þessi atriði. Ég er alveg sannfærður um að fulltrúar stjórnarflokkanna væru löngu mættir ef samviskan væri bærileg gagnvart þessu máli.

Svo er það auðvitað kapítuli út af fyrir sig að samfylkingarflokkarnir fjórir í stjórnarandstöðunni skili algerlega auðu í þessu máli og hafi ekki látið svo lítið að segja eitt einasta orð, hvorki við 1. umr., þar sem auðvitað enginn sagði neitt nema fjármálaráðherrann, né heldur í dag þó að búið sé að ræða þetta mál síðan klukkan rétt rúmlega þrjú.