149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur nefnt það í ræðum sínum eða andsvörum að tölur á bilinu 13,6, held ég að það hafi verið, eða 13,7 milljarðar til 23 milljarðar gæti verið það sem Íslendingar, íslenska ríkið, eru að verða af í rauninni með því að fara þessa leið, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt. Það eru þó nokkuð miklir peningar sem hægt er að gera margt og mikið fyrir.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem hefur mikla reynslu af verktakastarfsemi og öðru slíku og situr í umhverfis- og samgöngunefnd og er þar formaður, þótt í tímabundnu hléi sé frá því núna, geti sett þessar upphæðir aðeins í samhengi þegar kemur að samgönguáætlun. Það er vitanlega þannig að þegar við gefum frá okkur fjármuni þá notum við þá ekki í verkefni sem eru nauðsynleg. Fyrir 13 eða 23 milljarða er hægt að gera ýmislegt. Það má vitanlega heimfæra það upp á hvað sem er, hjúkrunarheimili, eitthvað slíkt. En út frá því sem þingmaðurinn þekkir til þá dettur mér í hug samgöngumál. Maður fer býsna langt með segjum 13 milljarða í samgöngumál. Það eru alla vega ein góð jarðgöng, mögulega tvenn ef þau eru stutt og á þægilegum stað. Það er Reykjanesbrautin væntanlega, bara til að setja það í samhengi um hvaða upphæðir er að ræða ef við leyfum okkur að reikna út bestu mögulegu útkomu og svo þá útkomu sem er hugsanlega í pípunum hér. En enn og aftur vantar okkur svör við mörgum af þessum spurningum.