149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð til að ramma inn þessar tölur. Fyrst er það 23 milljarða talan, rammast inn af 190 kr. á evru, viðmiðinu sem lagt var af stað með í upphafi samanborið við gengi dagsins í dag. Hins vegar eru neðri mörkin 16,4% afföllin sem aflandskrónueigendur sömdu um hinn 12. mars 2017, þegar 90 milljarða stabbinn fór í gegn.

Fyrir upphæðir á þessu bili, 13,6–23 milljarða, bara til að setja þetta í samhengi, ef við horfum á seinni hluta samgönguáætlunar eins og hún var lögð fram og fjárveitingarnar sem rammaðar eru inn í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þá eru áætlaðir 7,8 milljarðar til nýframkvæmda á árunum 2022 og 2023. Það er á sextánda milljarð, þessi tvö ár í heildina. Neðri mörkin fara langt með að tomma allar nýframkvæmdir á árinu 2022 og 2023. Efri mörkin, 23 milljarðarnir, eru u.þ.b. helmingur á árinu 2021 á móti.

Hæstv. ríkisstjórn lítur þannig á að hér sé stórsókn í gangi í samgöngumálum með tímabundnu viðbótarframlagi sem skilar heildarfjárveitingum upp á 15,5 milljarða til vegaframkvæmda á árinu 2019, 2020 og 2021. Það er örlítið yfir neðri mörkunum, vel innan marka, eða 1,5 ár af þessu stórátaki sem efri mörkin skila. Í samhengi við samgöngumálin þá eru þetta auðvitað risavaxnar tölur, algerlega risavaxnar.