149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég held að það megi til sanns vegar færa að í hvaða samhengi sem er þá eru þessar tölur risavaxnar. Þær eru það vissulega í tengslum við þau verkefni sem bíða í samgöngumálum og áhugavert að setja þetta í samband við hina meintu stórsókn í samgöngumálum þar sem tölunum svipar mjög til neðri markanna sem hv. þingmaður nefndi. Það er því eðlilegt að velta því upp hvaða rök eru fyrir því að fara þessa leið og gefa eftir þessa fjármuni ef við leyfum okkur að reikna þetta svona og tala svona. Hvað erum við þá að fá í staðinn? Hvað erum við að fá í staðinn fyrir að samþykkja þetta frumvarp og láta það ganga í gegn? Ég verð að viðurkenna að það er ein af þeim spurningum sem hefur verið velt upp og er nauðsynlegt að fá svar við: Hvers vegna er verið að gera þetta núna með þessum hætti? Og hvað erum við að fá í staðinn?