149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Gefum okkur bara að stjórnvöld hefðu gefist upp en ekki alveg gefist upp heldur sætt sig við 190 kr. Ég ætla að biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér: Hvað ef við lítum til heildaráhrifa fyrir ríkið og samfélagið og miðum við þessa 23 milljarða tölu og setjum það í samhengi við umræður um kjarasamninga og þá miklu kröfu sem hefur verið á að byggt verði félagslegt húsnæði í auknum mæli? Hvað má ímynda sér að væri hægt að byggja af félagslegum íbúðum fyrir þessa upphæð? Takandi með í reikninginn að þetta veltist áfram í kerfinu og skilar sér í formi skatta og hægt að nota áfram. Ég hef séð áætlanir um að þetta gætu verið 500–1.000 íbúðir. Hvað myndi hv. þingmaður skjóta á til að setja þetta í annað samhengi en vegamálin (Forseti hringir.) sem við ræddum eða voru rædd aðeins áðan?