149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Mig langar að gera að umtalsefni og fylgja eftir nokkru sem kom fram í máli hv. þm. Bergþórs Ólasonar hér áðan. Ég ætlaði reyndar að spyrja hv. þingmann út í þetta í andsvari en láðist að gera það. Þegar við vorum að velta því fyrir okkur hvers vegna menn væru til í að afsala þjóðinni 23 milljörðum kr. velti hv. þingmaður því upp hvort verið gæti að menn væru einfaldlega orðnir saddir, eins og hann orðaði það.

Ég fór að hugsa nokkur ár aftur í tímann, til þess tíma þegar stöðugleikaskilyrði voru kynnt. Þá stóð bunan upp úr hverjum kratanum á fætur öðrum um það að með því að taka stöðugleikaskilyrði fram yfir stöðugleikaskatt væri verið að rýra útkomu úr slitabúunum um nokkur hundruð milljarða króna. Þessi lygabuna stóð upp úr þessum krötum hér, svona u.þ.b. hálft þing. Menn æstust í sífellu og talan hækkaði eftir því sem fleiri tóku til máls. Hún var á bilinu 100–500 milljarðar eftir því sem menn sögðu.

Þegar menn komast síðan í tæri við það að vinna úr því sem út úr þessu kom — skipulagið og planið sem lagt var fram 2015 virkaði fullkomlega — og þegar menn verða varir við að þetta hefur allt virkað svona vel getur þá verið að mönnum finnist að það muni ekkert um einn sláturkepp í sláturtíðinni, 23 milljarða kr., þ.e. þegar menn höfðu gengið að þeim árangri sem náðist með stöðugleikaskilyrðunum sem sett voru á sínum tíma og hafa líklega skilað þjóðarbúinu í kringum 700–900 milljörðum kr., giska ég á, þegar allt er talið?

Í sjálfu sér er ekki allt komið fram enn. Eins og menn vita rataði Íslandsbanki í eigu þjóðarinnar eftir að þessi skilyrði voru sett fram og menn vita ekki enn hvað út úr því kemur. Talandi um að afsala sér tekjum og eignum þá gekk sú ríkisstjórn sem nú situr mjög langt með því að segja nei takk við því að yfirtaka Arion banka. Menn töluðu hér í kross í fyrra, eins og margir muna, um að annaðhvort væri forkaupsréttur ríkisins til staðar eða ekki. Lengst af héldu menn því fram að hann væri enginn. Síðan kom í ljós, í fréttum, að ríkisstjórnin afsalaði sér með formlegum hætti forkaupsrétti á þessum banka.

Hvað hefur gerst síðan? Það sem gerst hefur síðan er að þeir sem eignuðust Arion banka, vogunarsjóðir, hafa greitt sér út 20 milljarða í arð á innan við ári. Þeir eru nú með stærstu einstöku eign bankans í söluferli og munu væntanlega hagnast um 50 milljarða á sölu þeirrar eignar, hlutans sem er Valitor. Af þessum 120–130 milljörðum, sem bankinn var metinn á í þessari yfirfærslu, eru menn líklega búnir að fá til baka 70 milljarða á einu ári upp í það sem þeir væntu. Þá fer maður að spyrja: Var það svona agalegt að afsala sér tekjum, afsala sér eignum ríkissjóðs? Það var það þá en það er engin fyrirstaða í því að gera það núna. Það er engin fyrirstaða í því að gefa eftir þessa 23 milljarða sem við höfum haldið fram að séu innbyggðir í þann 84 milljarða stabba sem nú er eftir, sem er kannski síðasti bitinn af þessari köku.

Menn segja sem svo: Þessir ágætu vogunarsjóðir, góðu vinir okkar, sem hafa átt krónueignir hér og hafa hangið eins og hundar á roði frá 2008 á þeim eignarhlutum sínum mega fara út með þessa peninga á sama verði og einstaklingur sem fer í ferð til útlanda.

Þetta er ótrúlegt, frú forseti. Það er svo ótrúlegt að þetta skuli gerast nú á vakt þessa fólks sem hrópaði sig hást hér fyrir nokkrum árum.