149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kveikti aðeins í mér þegar hann nefndi Arionbankamálið. Ég hafði reyndar hugsað mér að fjalla sérstaklega um það í ræðu hér síðar í nótt en fyrst ætla ég að halda ræðu um gjaldeyrishringekjuna og svo aðra um það þegar vinstri stjórnin, og kannski sérstaklega Vinstri grænir, gáfu Arion banka og Íslandsbanka í fyrra skiptið en að því búnu snúa mér að Arion banka.

En fyrst hv. þingmaður nefnir þetta þá get ég ekki á mér setið að koma aðeins hingað upp og gera smáathugasemd. Er það kannski oftúlkað hjá mér eða var ekki hv. þingmaður að segja að þetta væru um margt augljóslega skyld mál en líka um margt líkt í því hvernig ríkisstjórnin, þeir sem standa að þessu, bregst við, hvernig hún setur málin fram? Menn þrættu fyrir það lengi og urðu ergilegir þegar bent var á forkaupsrétt ríkisins. Mér finnst ég sjá sams konar viðbrögð núna. Menn vilja ekki ræða þetta.

Hér kemur fjármálaráðherra, talar í rúmar sex mínútur og hleypur út. Svo kemur formaður nefndarinnar og skilar af sér nefndaráliti og hann er hlaupinn út. Enginn reynir að rökstyðja málið. Enginn reynir að tala fyrir því. Mig minnir að þetta sama fólk hafi brugðist nákvæmlega eins við tilraunum okkar til að benda á klúður þeirra varðandi Arion banka, sem er auðvitað hluti af þeirri sömu U-beygju sem stjórnvöld tóku frá stóra planinu frá 2015, plani sem var að virka fullkomlega. Á þessum tveimur meginsviðum verður algjör U-beygja og viðbrögðin mjög sambærileg. Ég fór að rifja þetta upp þegar hv. þingmaður nefndi þetta.

Er það rétt munað hjá mér að líkja megi þessu tvennu saman í viðbrögðum stjórnvalda?