149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að hv. þingmaður hafi nokkurn veginn hitt naglann á höfuðið eins og honum er tamt. Í hverju málinu á fætur öðru sjáum við þennan gamla undirlægjuhátt gegn erlendu valdi sem kristallaðist hér fyrr á öldinni. Við sjáum hann nú ganga aftur og kannski er það vegna þess að Vinstri grænir, sem voru nú einna handgengnastir erlendu valdi upp úr aldamótunum, upp úr 2009 eða þar um bil, og gengu í sjálfu sér jafn langt og menn gengu hér á 13. öld til að reyna að koma verðmætum þjóðarinnar fyrir í erlendu eignarhaldi, hafa fengið danspartner sem er jafn lítill í sér og er jafn veikur til hnésins eins og þeir eru sjálfir. Þessi dans þessara hjólbeinóttu dansfélaga kostar þjóðina 23 milljarða, að við teljum, bara í þessu vetfangi. Fyrir svo utan það sem ég rakti hér áðan með Arion banka. Jú, ég verð að segja að þetta er einhvers konar mynstur sem virðist vera hjá þessum flokkum. Það er eins og þeir séu hræddir við útlendinga og þori ekki að tala við þá og þori alls ekki að malda í móinn gegn þeim.

Auðvitað er það rétt, sem hér hefur komið fram í ræðum í dag og í kvöld, að við eigum ekki von á góðu, Íslendingar, ef þetta verður tónninn áfram í samskiptum við erlend öfl. Þó að þetta mál sé stórt og brýnt þá eigum við náttúrlega eftir að standa frammi fyrir miklum áskorunum í framtíðinni, í náinni framtíð. Guð hjálpi okkur öllum ef svo verður tekið á eins og nú.