149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari hv. þingmanni held ég að erlendur banki geti glaður gengið hér á land vegna þess að hann getur treyst því að ríkisstjórn sem lúffar í sífellu fyrir útlendingum mun náttúrlega skapa slíkum banka mjög góð skilyrði. Það er næsta víst.

Það er hins vegar annað sem veldur áhyggjum. Einn af helstu verkalýðsleiðtogum landsins gekk út af fundi með ríkisstjórninni um daginn. Ef ég hef skilið hann rétt báru menn á þeim fundi fram makalausar skattatillögur, tvöþúsundkallinn, en minntust t.d. ekki á afléttingu verðtryggingar eða að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni eða lækka vexti, nema að því leyti til, ef ég hef skilið hann rétt, að ríkisstjórnin hefði í huga að leita til erlendra sérfræðinga um það hvort þeir teldu að hægt væri að leggja af verðtryggingu á Íslandi.

Ég hef ekki enn rætt við viðkomandi, en ætla mér að gera það, til að fá það á hreint og spyrja hann að því hvort það geti virkilega verið að ríkisstjórn Íslands sé svo aum að hún geti ekki einu sinni farið eftir úrskurði nefndar sem komið var á fót á síðasta þingi, síðasta haust, þegar menn heyktust á því að samþykkja frumvarp okkar Miðflokksmanna um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu.

Í staðinn var lagt upp í vegferð með einhverja mjög götótta þingsályktunartillögu frá Framsóknarflokknum sem var opin í báða enda og mjög óskýr. Hún átti að liggja fyrir 1. desember, 1. janúar og 1. febrúar en hefur ekki sést enn. Það getur verið að fæðingin sé svona erfið. Ef það er rétt að á grunni þeirrar nefndar eigi nú að útvista verkefninu enn á ný og í þetta skipti til útlendra aðila, er fokið í flest skjól, held ég.