149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður hefur verið mjög skeleggur og gengið fram fyrir skjöldu til að afla upplýsinga varðandi sölu Íbúðalánasjóðs á eignum sjóðsins. Er framganga hans í þessu máli mjög þakkarverð og er mjög brýnt mál að fá upplýsingar um það hverjir keyptu þessar eignir sem skipta hundruðum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa gengið fram fyrir skjöldu með þetta mál. Við bíðum enn spennt eftir þessum upplýsingum, eins og kunnugt er.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hverjir standa á bak við þá 84 milljarða sem við erum að tala um. Er ekki nauðsynlegt að við fáum vitneskju um það? Það getur haft áhrif á málið allt í heild sinni að sjá hvort þarna eru einhverjir aðilar sem hafa verulegra hagsmuna að gæta og hafa beðið lengi eftir þessu.