149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það læðist vitanlega að manni sá grunur að málatilbúnaðurinn sé ekki sérstaklega traustur. Í ljósi þess að þeir sem bera ábyrgð á þessu máli og vilja keyra það í gegn tel ég betra að halda umræðunni áfram inn í nóttina með hóp þingmanna, leitandi að svörum við spurningum sem ekki fást gefin í rauninni. Svörin fást ekki gefin.

Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé ekki svolítið undarleg aðferðafræði þegar mögulega hægt væri að fá botn í málið með því að svara þeim spurningum sem hér er verið að bera fram. Ef þeim yrði svarað og farið yfir þær væri hugsanlega hægt að sameinast um það og kannski myndum við bara samþykkja málið hreinlega. En það er ekki hægt að gera vegna þess að engin efnisleg umræða á sér stað um málið. Þeir sem bera ábyrgð á málinu, úr þeim hópi hafa verið haldnar tvær ræður, örstuttar.