149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið fram í máli okkar Miðflokksmanna oft og tíðum að sá hópur sem enginn kýs en öllu ræður, embættismannakerfið, sé sífellt að seilast eftir meiri áhrifum í því sem gert er. Það virðist vera í þessu efni, í þessu frumvarpi, að enginn stjórnmálamaður hafi, a.m.k. með einhverja pólitíska sýn, komið að málinu.

Ég segi aftur: Ég er þannig þenkjandi að ef það er svo að menn treysta sér ekki til að koma hingað, eiga við okkur orðastað um það og eins og ég sagði áðan, segja okkur bara hreint út að við vöðum reyk, færa fyrir því einhverjar sannanir og færa fyrir því einhver rök sem hægt er að taka gild væri hægt að ljúka þar með þessari umræðu.

Ég segi hins vegar, mér finnst umræðan góð og ég vil að hún haldi áfram, vegna þess að þó að við séum náttúrlega að leita að svörum erum við líka að velta upp hlutum sem er mjög nauðsynlegt fyrir fólkið í landinu að vita. Það er nauðsynlegt fyrir fólkið í landinu að vita að ríkisstjórnin er áhugalaus með öllu um hag þess.