149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hef nú rakið stuttlega undanhald Seðlabankans og annarra stjórnvalda og byggt það eingöngu á fréttatilkynningum Seðlabankans. Meira um undanhaldið síðar. Áður en ég kem að því ætla ég að fjalla aðeins um gjaldeyrishringekjuna, sem við getum kallað svo, öðru nafni fjárfestingarleið Seðlabankans, sem var hluti af aðgerðum sem komið var á í tíð vinstri stjórnarinnar einmitt til að fást við það sem við erum enn að ræða nú, aflandskrónuvandann. Það var um margt dæmalaus leið. Hún fólst í því að gefa efnuðum Íslendingum sem áttu fjármagn erlendis í erlendri mynt, tækifæri til að kaupa krónur hér á Íslandi á umtalsverðum afslætti, aflandskrónur, og nota til fjárfestinga hér. Og hverjir voru það sem seldu þessar aflandskrónur? Jú, það voru auðvitað aflandskrónueigendur, en Seðlabankinn hafði milligöngu um það. Seðlabankinn hleypti sem sagt inn einhverjum vildarvinum frá útlöndum sem fengu að kaupa krónur á afslætti og hleypti út á sama tíma aflandskrónueigendunum úr höftum, sem seldu Íslendingum. Nefna má dæmi um að vísindamaður hér í bæ eða fyrirtæki hans keypti 5.130 millj. kr. á genginu 240.

Frú forseti. Setjum það nú í samhengi við það sem við höfum rætt hér áður. Og ýmislegt annað er nefnt hér, ýmis dæmi í Markaðnum, riti Fréttablaðsins frá 19. júlí 2017. Raunar keypti sá aðili sem ég nefndi fyrst, þetta fyrirtæki, krónur upp á 9.267 milljónir. Og hér eru nefnd ýmis verð, 235 kr. á evruna, 240 kr. á evruna, tæplega, 240 slétt og fleiri verð sem menn keyptu þessar aflandskrónur á á sínum tíma. Þeir keyptu sem sagt íslenskar krónur á afslætti sem þeim leyfðist þá að nota hér. Og hvernig notuðu þeir þær? Til að kaupa fyrirtæki, fjárfesta í samkeppni við hina sem voru hér fyrir og höfðu ekki afsláttarkrónur til að keppa til að nota í sinni samkeppni. Svoleiðis að menn gátu fjárfest fyrir krónur sem þeir höfðu keypt á afslætti, notið eignabólunnar sem fór af stað víða, og notið styrkingar krónunnar.

Skrúfað var fyrir þá leið í tíð ríkisstjórnar minnar og kynnt heildstæð áætlun, eins og ég rakti hér áðan, þar sem tekið var öðruvísi á hlutunum. Taka átti þau öll föstum tökum og ná endanlegri niðurstöðu þar sem allir þyrftu í raun sitja við sama borð og áttu að geta treyst því að ríkið myndi standa við sitt og myndi ekki láta menn komast upp með nein undanbrögð. En í staðinn horfum við upp á að nú sé endanlega verið að víkja frá því sem þar var lagt upp með og þrjóskustu eigendur aflandskróna verði bara leystir út á seðlabankagengi, ólíkt þeim sem tóku þátt í fyrri uppboðum, eða í þessari fjárfestingarleið Seðlabankans þar sem þeir seldu krónurnar sínar á miklu lakara gengi í mörgum tilvikum. En þeir sem héldu lengst út og voru lengst andsnúnir því að spila með í því plani sem lagt var upp með 2015, eiga þá væntanlega von á verðlaunum. Ætli það sé ekki það sem átt er við þegar menn tala um að drífa þetta af til að gleðja markaðinn? Þá verði þessir menn glaðir og séu þá væntanlega stór hluti af markaðnum.