149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það kemur einmitt fram í þeirri grein Markaðarins sem ég vitnaði í áðan að alls hafi 1.100 milljónir verið fluttar til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar — ekki króna, heldur evra — 1.100 milljónir evra verið fluttar til landsins með þessari leið og svo væntanlega út aftur fyrir aflandskrónufjárfestana sem fóru með þá peninga út. Þessi leið var auðvitað gagnrýnd af ýmsum ástæðum. Eins og við ræddum aðeins áðan, eða ég í erindi mínu, fengu menn með þessu ákveðið forskot í samkeppni fyrirtækja í fjárfestingum og uppbyggingu og slíku. Það er ekki gott þegar fyrirtæki keppa á sama sviði og annað er fjármagnað af krónum sem eru keyptar á afslætti. En einnig fjárfestu menn í verðbréfum og með því voru þeir í rauninni að kaupa krónur á afslætti, ávaxta þær á háum vöxtum á Íslandi og njóta ávinnings af þróun gjaldmiðilsins. Sem sagt, umtalsverður ávinningur fyrir þá sem höfðu verið í þeirri stöðu að eiga erlendan gjaldeyri í útlöndum. Og þetta voru reyndar ekki bara innlendir aðilar. Það komu hér inn erlendir aðilar í gegnum þessa leið líka og fjárfestu og þá væntanlega (Forseti hringir.) hugsa þeir sér eða hafa hugsað sér að innleysa ávinninginn síðar.