149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það er vitanlega áhugavert að skoða þá aðila sem nýttu sér þessa leið og eðlilegt að það séu viðskiptamenn eða menn sem áttu eignir erlendis. Það er áhugavert að þessi leið hafi verið búin til til að þeir gætu komið heim með þetta fé á kostakjörum, ef má orða það þannig.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn hvaða afleiðingar það hafi haft að ákveðnir aðilar gátu fengið ódýrt fé með þessum hætti til að fjárfesta, kaupa fyrirtæki eða fara í einhvers konar rekstur meðan aðrir sátu ekki við sama borð, hvort þar með hafi aðilum ekki verið mismunað nokkuð freklega, í það minnsta mismunað aðilum á markaði sem voru í samkeppni í ýmsum rekstri á Íslandi.