149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er a.m.k. undarlegt ef menn ætla einfaldlega að treysta á það, eða vona, eins og Seðlabankinn virðist lýsa í athugasemdum sínum, að menn sem hafa verið fastir hér, lokaðir inni með fjárfestingu sína í 10 ár, að daginn sem þeir losna segi þeir: Ja, við viljum bara vera lengur hérna. Ef þetta er það sem menn ætla að reiða sig á, bara að treysta að þetta verði viðbrögð viðkomandi aðila þá eru menn ekki tilbúnir í þessa losun, þá leyfir ástandið ekki þessa haftalosun.

Það er mjög áhugavert að velta því fyrir sér núna í ljósi þess að Seðlabankinn gaf þau skilaboð að ef samþykkja ætti þetta mál þyrfti að samþykkja það í fyrradag, áður en það kom aftur inn í þingið — í ljósi þess að ekki varð af því, má þá ekki álykta sem svo að skilaboð Seðlabankans séu að samþykkja málið ekki, a.m.k. að bíða með það?