149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að halda áfram að rifja upp söguna í þessu máli öllu saman, aflandskrónumáli. Það er eitt ráð þegar maður er að reyna að fá svör eða átta sig á því hver heildarmyndin er að horfa til baka. Ég ætla að gera það núna og vitna aftur í leiðara Fréttablaðsins, frá 30. júní 2017, þar sem enn og aftur Hörður Ægisson, sem skrifað hefur um efnahagsmál og fjármál, skrifar leiðara. Hörður segir, með leyfi forseta, og ég minni á að þetta er 30. júní 2017:

„Á undanförnum mánuðum hafa íslensk stjórnvöld og Seðlabankinn gert ítrekaða atlögu að því að fá eigendur aflandskróna, sem að stærstum hluta eru bandarískir fjárfestingarsjóðir, til að selja krónueignir sínar fyrir gjaldeyri á afslætti miðað við skráð gengi. Öll sú atburðarás hefur verið með miklum ólíkindum — og grafið undan trúverðugleika stjórnvalda. Meintir afarkostir sem aflandskrónueigendum átti að vera gert að sæta hafa reynst vera án nokkurrar innstæðu.“

Það er að sjálfsögðu mjög athyglisvert þegar einn af okkar helstu viðskiptablaðamönnum segir með svo skýrum hætti að menn séu í rauninni að grafa undan trúverðugleikanum með því að hverfa frá þeirri stefnu sem samþykkt var og voru höfð uppi orð um að ekki yrði hvikað frá, eðlilega, því annars hefðu menn ekki samþykkt þessa áætlun og stefnu. Hér kemur fram í þessum leiðara að þarna hafi ítrekað verið reynt og gert í því aftur og aftur að reyna að ná samkomulagi. Hvaða hvati er að baki því að gera slíkt þegar menn hafa í rauninni allt í höndunum, hafa algjöra stjórn á málinu? Hvers vegna fara menn þá í þann leiðangur sem farið var í og breyttist þarna um mitt ár 2016, í júní, eitthvað svoleiðis, og nær ákveðnum hæðum þegar þetta er skrifað og virðist halda áfram varðandi þetta mál sem við erum með hér til umræðu í nótt?

Maður veltir þar af leiðandi fyrir sér hvort hægt sé í rauninni að leggja saman tvo og tvo og fá það út að þetta sé bara eðlilegt framhald af því sem t.d. var að gerast þegar þessi ágæti blaðamaður skrifar í Fréttablaðið 30. júní. Að það sé bara áframhaldandi eftirgjöf og menn séu að reyna að fá sem minnst fyrir þetta til að geta klárað þetta mál. Ef þetta snýst um að klára málið þá er náttúrlega spurning hvað í ósköpunum liggi á. Það kom fram að þetta eru um 3,1% af þessum heildarstabba sem þarna var og er þá mikið vatn runnið til sjávar og menn greinilega búnir að leggja töluvert á sig til þess að gefa þessa afslætti. Í von um hvað? Til hvers? Hvað er það sem gerði það að verkum að menn fóru í þennan leiðangur? Við því höfum við ekki fengið svör frekar en öðru sem hér hefur verið varpað fram í kvöld og í nótt. Svörin sem menn hafa kallað eftir liggja greinilega ekki á lausu.

Með leyfi forseta, skrifar þessi blaðamaður áfram:

„Í byrjun mars var tilkynnt að sjóðir sem ættu 90 milljarða í aflandskrónum hefðu samþykkt að skipta á þeim fyrir evrur á genginu 137,5. Níu mánuðum áður höfðu sömu sjóðir hafnað því að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, þar sem þeim hafði boðist að selja krónur sínar á genginu 190 fyrir hverja evru, og þess í stað valið að sitja fastir með fé sitt á vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma. Sjóðirnir hafa stórgrætt á þeirri ákvörðun.“

Nákvæmlega. Það er verið að verðlauna þá sem vildu ekki taka þátt í því ferli sem stjórnvöld settu af stað. Það er verið að verðlauna skussana eða í rauninni þá sem voru þrautseigir og snjallir með því að gefa þeim færi á því að hagnast meira en aðrir eða fá betri kjör en aðrir fengu á krónueignum sínum. Þetta er mjög athyglisvert og mikilvægt að halda til haga og vitanlega er þetta skráð hér. Þetta ýtir undir það að það er mikilvægt fyrir okkur að fá svör við þeim spurningum sem við höfum reynt að kalla eftir hér í nótt.