149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta eru ágætisvangaveltur og góð spurning. Hv. þingmaður segir að enginn stjórnarliði þori að verja málið en það er ekki einu sinni verið að reyna að selja málið. Það er ekki einu sinni verið að reyna að tala fyrir því að þetta sé snjallt mál, að þetta sé nauðsynlegt eða að þetta sé eitthvað sem þingheimur allur eigi að fylkja sér um.

Það er reyndar með ólíkindum að sjá hvernig vinstri flokkarnir í stjórnarandstöðunni, þessir fjórir, hafa sameinast um að vera sammála stjórnarflokkunum um að þetta sé sniðugt mál. Eins og fram kemur í þeim leiðara sem ég las upp hér áðan er minnst á það að einn af skrifstofustjórunum í fjármálaráðuneytinu hafi verið með yfirlýsingar um að vænta mætti betri tíðar og betri kjara fyrir þá sem eftir sátu; að það hafi verið sett fram sem einhvers konar „PR stunt“ eða til þess að vera með einhverja væntingastjórnun.

Sé þetta rétt er það algerlega galið að halda að eigendur krónueigna sem eru búnir að bíða og bíða geti ekki beðið aðeins lengur í von um betri tíð og að sjá fram á að græða enn meira á þessum eignum sínum, sem er vitanlega komið í ljós í þessu frumvarpi ef það er eins og ég skil það. Þá verður þeim að ósk sinni, þá eru þeir að fá borgað fyrir þrautseigjuna, þeir eru að fá greitt fyrir að hafa verið með þvermóðsku og það er á ábyrgð þeirra sem ákváðu að víkja frá þeirri stefnu sem samþykkt var 2015. Það er á ábyrgð þeirra sem ætla sér að samþykkja þetta mál að verðlauna þessa sjóði í stað þess að ná í meira fjármagn og nota það t.d. í þágu verkalýðsins.