149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Hörður Ægisson blaðamaður var að öðrum ólöstuðum sennilega sá blaðamaður sem setti sig best inn í þessi mál, að manni sýndist úr fjarska þegar á þessu stóðu öllu. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur hér verið að líta í þau skrif hans og fara í gegnum þau. Er eitthvað sem hv. þingmaður hefur rekið augun í af því sem Hörður Ægisson skrifaði á þessum tíma sem hefur ekki haldið, ef svo má segja? Eða virðist hann hafa hitt naglann ítrekað þannig á höfuðið að skynsamlegt væri hjá núverandi stjórnvöldum að fá greinasafnið sem hv. þingmaðurinn er með á borðinu fyrir framan sig lánað og lesa sig í gegnum það áður en þau taka endanlega ákvörðun um að gera atlögu að því að keyra málið í gegnum 3. umr. og atkvæðagreiðslu? Það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur haft eftir úr þessum greinum í kvöld hefur allt verið þeirrar gerðar að mikið vit er í og oft er gests augað glöggt og þarna horfir blaðamaðurinn á þessi mál verandi staðsettur utan hinna daglegu stjórnmála. Ég ítreka spurninguna: Er eitthvað í þessu sem eldist illa, ef svo má segja?