149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að ólíklegt sé að menn geri sér grein fyrir því fyrir hverja þeir eru að vinna, hverra hagsmuna þeir eru að gæta. Mér þykir hins vegar mjög undarlegt, og meira en undarlegt, að svona mikill meiri hluti þingsins skuli vera reiðubúinn til að láta mál af þessari stærðargráðu fara í gegnum þingið án nokkurrar umræðu og án nokkurra upplýsinga.

Framan af degi í gær já, þá trúði ég ekki í raun og veru að þetta væri með þessum hætti. Síðan þegar maður kemur lengra inn í umræðuna, og ekki gengur hætishót að fá nokkurn mann úr þessu liði til að koma hingað upp til að segja okkur að við séum á villgötum eða þetta sé allt saman misskilningur hjá okkur og að þetta sé allt hið besta mál þegar enginn treystir sér til að gera það. Það er enginn sem treystir sér til að koma inn í þennan sal og mæta okkur í þessu máli. Og þá fer maður hafa vissar efasemdir um að menn hafi kynnt sér málið.