149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:38]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum enn að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál . Við höfum verið að ræða þetta mál núna í bráðum 13 klukkutíma. Enn er ekki búið að upplýsa mann um það sem við höfum þó verið að leitast við að fá svör við og erum við enn að kasta á milli okkar spurningum og svara af besta mætti, við sem höfum verið að ræða þetta mál, eingöngu þingmenn úr Miðflokknum.

Í ræðu minni fyrr í nótt þá talaði ég um að þeir fjármagnseigendur sem ekki hafa gefið eftir í þessu ferli um losun hafta eru einmitt þeir sem nú eiga að fá sérkjör og klapp á bakið, eins og ég orðaði það, í meðferð þessa máls. Síðan var ég að blaða í gögnum sem við höfum verið að viða að okkur og þar er tilkynning frá Seðlabankanum um að bankinn geri samkomulag við eigendur aflandskróna. Með leyfi forseta ætla ég að lesa aðeins upp úr þessu:

„Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag við eigendur krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, samanber lög nr. 37/2016. Í samkomulaginu felst að Seðlabankinn kaupir af þeim aflandskrónueignir að fjárhæð um 90 milljarðar króna á genginu 137,5 krónur á evru. Aflandskrónueigendum sem ekki hafa gert samkomulag við bankann verður boðið að gera sams konar samninga á næstu tveimur vikum. Samkomulagið er gert á grundvelli heimildar Seðlabankans til slíkra viðskipta, samanber 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis III í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.“

Það má geta þess að á þessum tíma var krónan mjög sterk og gengið á evrunni 107,5. Þetta er verið að bjóða þessum fjármagnseigendum, sem ekki vildu standa að málum á sínum tíma 2015 þegar planið var gert um losun hafta, af því að þeir hafa verið svo þrautseigir og þolinmóðir að hanga eins og hundur á roði þarna inni þennan tíma, vitandi það, þeirra hugsun pottþétt, að þolinmæðin þrautir vinnur allar og að á endanum muni stjórnvöld gefa sig. Það kemur í ljós í þessum texta og sannar fyrir mér að það sem ég gat um í ræðunni fyrr í nótt var á rökum reist. Ég var ekki algerlega með það á hreinu á þeim tímapunkti heldur var ég búinn að heyra þetta í ræðum frá öðrum. Smátt og smátt er maður að gera sér betur grein fyrir því að stjórnvöld og þar með talinn Seðlabankinn standa ekki í lappirnar gagnvart þessum fjármagnseigendum heldur eru þeir í raun og veru að spila á stjórnvöld. Það er bara sorglegt að verða vitni að því og það er mjög miður vegna þess, eins og oft hefur komið fram hér í ræðum og sjálfur hef ég talað um það, að við þurfum að taka upplýstar ákvarðanir. Við þurfum að standa með þjóðinni og gera það sem landi og þjóð er fyrir bestu.