149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Að sjálfsögðu er stefna og staðfesta eitthvað sem mér hugnast vel. Af því að þingmaðurinn minntist á sveitarstjórnarmál þá var ég í bæjarstjórn í mínum heimabæ í fjögur ár, eitt kjörtímabil, og lærði þar heilmikið, eins og af öllu sem maður tekur sér fyrir hendur í lífinu.

Á þeim tíma var bæjarstjórinn mikilli reynslubolti úr stjórnmálum til margra ára og áratuga, fyrrverandi ráðherra, þingmaður og forseti Alþingis á sínum tíma. Hann var mjög stefnufastur og staðfastur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Það var mjög gott að vinna með honum að því leytinu til að maður fann fyrir þeim styrk sem reynsla hans og vinnusemi veittu okkur.

Hann var það að marineraður í stjórnmálum að ef okkur leið illa með eitthvað þá sagði hann bara: Látið þetta yfir á mig, það sér hvort eð er ekki á svörtu.

Ég segi þetta nú bara í gríni, vegna þess að það þarf náttúrlega kjark og staðfestu til að standa fyrir sínu í stjórnmálum. En það er ekki það sem maður hefur á tilfinningunni þegar við ræðum þetta tiltekna mál, þessar aflandskrónur. Þá kemur manni ekki í hug stefna eða staðfesta.