149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Við höfum verið að velta fyrir okkur hvað valdi fjarveru bæði stjórnarliða og stjórnarsamstöðunnar, flokkanna sem standa með ríkisstjórninni. Við höfum svo sem ekki haft annað en kenningar úr að spila, enda hafa menn einfaldlega ekki treyst sér til að mæta hér til að halda svo mikið sem eina ræðu frá því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar las nefndarálit. Við höfum ekki á miklu að byggja.

Hv. þingmaður nefndi eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér líka og það eru áhrif sífellt sterkara kerfis, kerfisræði má kalla það, á kostnað áhrifa stjórnmálamanna. Getur verið að skýringin sé einfaldlega sú að hvorki stjórnarliðar né stjórnarsamstaðan hafi í rauninni hugmynd um hvað í málinu felst og treysti sér þess vegna ekki til að verja málið? Ef sú er raunin ætti það þá ekki að vera okkur öllum verulegt áhyggjuefni ef þingmenn eru að skrifa upp á mál, og ætla væntanlega að mæta eins og kallaðir til að greiða atkvæði með því, án þess að hafa hugmynd um hvað í því felst, ekki einu sinni að því marki að þeir treysti sér til að halda eina litla ræðu? Hvað segir það okkur um hversu langt við erum komin í kerfisræðinu og hvernig kerfið metur hlutina ólíkt a.m.k. okkur í Miðflokknum hvað varðar þetta mikla hagsmunamál? Þá virðist afstaða stjórnvalda fyrir vikið vera að færast meira að því sem var í tíð vinstri stjórnarinnar.