149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir ræðu sína. Mig langar að halda áfram þar sem frá var horfið í seinna andsvari hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um það hvernig málið horfir við hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni nú þegar öllum má vera ljóst að þeir sem bera málið fram vilja ekki koma hér í pontu og færa rök fyrir þeim atriðum sem sett eru fram í frumvarpinu. Menn virðast vilja að þetta sleppi einhvern veginn í gegn án þess. Ætlanin var greinilega sú að málið í heild sinni fengi sem minnsta umræðu. Allir samfylkingarflokkar stjórnarandstöðunnar, fjórir talsins, virðast vera fylgjandi því að málið renni í gegn eins þægilega og nokkur kostur er. Hvort það er áhugi þeirra á nánari tengslum við Evrópusambandið, eða hvað það er, sem er rót þess er svo sem ekki alveg einfalt að ráða í. Ég hefði áhuga á að heyra aðeins betur hvernig þetta verklag þeirra sem bera málið fram slær hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, hvað það varðar að skilja menn eftir, sem hafa verið fengnir til stuðnings við málið, þannig að augljóst er að þeir sem bera málið fram vilja ekki taka pólitíska slaginn um að rökstyðja það og réttlæta.