149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:00]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þessar spurningar. Þetta mál hefur slegið mann illa alveg frá því fyrst þegar það kom til tals. Við munum eftir því rétt fyrir jólin þegar það átti að koma hingað inn á þing fimm mínútum fyrir jól. Við höfnuðum því og svo kom það inn í janúar til 1. umr. og inn í nefnd og síðan með þessum málatilbúnaði í þingið í dag.

Þingmaðurinn nefndi samfylkingarflokkana fjóra, hvernig það slái mig hvernig þeir taka þetta mál. Maður er farinn að gera sér betur og betur ljóst að í raun eru tvær stjórnarandstöður hér á þingi, stjórnarandstaða eitt og tvö. Annaðhvort erum við stjórnarandstaða eitt eða tvö og síðan eru það hinir stjórnarandstöðuflokkarnir. Það er þá bara svoleiðis og allt í góðu með það.

Ég veit ekki hvað þeim gengur til eða stjórnarliðum. Ég hallast að því sem við höfum verið að velta á milli okkar, að það sé ekki með stolti eða staðfestu heldur frekar með miklu óbragði í munni sem þetta mál er borið fram — við getum kannski bara sagt: ekki með hreinni samvisku.