149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Já, við höfum ítrekað séð að ekki er sama hver á í hlut þegar kemur að fundarstjórn forseta. Ég verð satt best að segja að viðurkenna að ég skildi ekki alveg hvað fólst í athugasemdum forseta áðan. Ég kannast ekki við að menn hafi verið að gera þingmönnum upp annarlegar hvatir þótt bent sé á þá augljósu staðreynd að enginn þingmaður stjórnarliðsins og enginn þingmaður þeirra flokka sem hafa staðið með stjórninni í þessu máli hefur treyst sér til að koma hingað upp og verja málið. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar las að vísu upp nefndarálit en treysti sér svo ekki til að verja málið frekar en það.

Ég ímynda mér að sá maður sem nú situr í forsetastóli hafi oft gert athugasemdir við aðra þingmenn og að þeir ræddu ekki mál án þess að forsetar sem þá hafa setið hafi látið það hvarfla að sér að ergja sig að því (Forseti hringir.) marki að menn færu að setja ofan í við þingmenn fyrir það að benda á fjarveru og umræðuleysi annarra þingmanna.