149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:09]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er sjálfsagt mál að verða við ósk hv. þingmanns úr því að eftir því er leitað að forseti skýri hvað varð til þess að hann bað þingmenn í allri vinsemd að gæta orða sinna. Þegar svo var komið að bæði var búið að vitna til drengskaparheits þingmanna að stjórnarskránni og velta vöngum yfir því hvar menn væru staddir gagnvart því og halda því fram að þingmenn sem stæðu að þessu máli eða væru ekki sama sinnis og þeir sem hér hafa haldið uppi umræðum væru með vonda samvisku gagnvart málinu, fannst forseta nóg komið. Þá fannst forseta ástæða til að biðja þingmenn að gæta orða sinna.

Það er alvenjulegt að þingmenn séu beðnir að gæta orða sinna og það er vægt úrræði sem forsetar beita gjarnan. Fleira hefur forseti ekki um þetta að segja og þessi orð verða ekki dregin til baka.