149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég reikna fastlega með því að hér sé forseti að setja ný viðmið þegar kemur að því hvernig menn haga orðum sínum í þessum ræðustól. Eru þau viðmið nokkuð langt frá þeim málatilbúnaði eða þeim orðum sem forseti sjálfur hefur látið falla í þessum ræðustól í þessu húsi, en það er svo sem ágætt ef menn mýkjast með árunum og velja sér nýjar lendur eða ný orð til að nota. Við hljótum að fylgjast með því í framhaldinu að farið verði eftir þessu í hvívetna þegar aðrir þingmenn tala í þessum ræðustól vegna þess að fram til þessa hefur forseti ekki gætt jafnræðis þegar kemur að því. Það er áhyggjuefni þegar Alþingi er komið á þann stað að forsetar þingsins, ég ætla að leyfa mér núna að segja að forseti sé orðinn þingforseti sumra þingmanna, gæti hagsmuna sumra þingmanna. Það er áhyggjuefni (Forseti hringir.) og ég held að við séum því miður komin á þann stað.