149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég bið forseta strax í byrjun að halda aftur af sér með að tala til mín því að ég ætla að halda áfram að gagnrýna þá örlítið sem hér hafa þagað þunnu hljóði í á fjórtándu klukkustund, að mér sýnist.

Það er auðvitað með miklum ólíkindum að hafa orðið vitni að því ítrekað, sérstaklega í málum sem snúa að fjármálaáætlun og fjárlögum í þau tvö skipti sem fjárlög hafa verið afgreidd í þinginu síðan ég settist á þing, að þingmenn — ég ætla að leyfa mér að taka út fyrir sviga þingmenn Samfylkingarinnar í ræðu minni — sem hafa á löngum köflum gengið hvað harðast fram í því að tala á þeim nótum að verið sé að afsala sér tekjum hér og þar innan kerfisins þegar menn vilja ekki spenna skattlagningarbogann alveg í botn. Oft og tíðum er gengið fram með þannig orðfæri að samkvæmt mælistikunni sem lögð var á okkur hér áðan hvað athugasemd hæstv. forseta varðar, mætti ansi oft berja í borðið vegna framgöngu hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Þar erum við að tala um upphæðir sem eru miklum mun lægri en það sem við erum að fjalla um núna. Við erum þar að tala um upphæðir sem eru þrátt fyrir allt inni í kerfinu hjá okkur, skapa störf, verkefni og skatttekjur þegar hringrásin fer af stað aftur. En hérna erum við að tala um upphæðir sem, gangi allt eftir sem lagt er upp með, fara út úr kerfinu og verða engum til gagns hér heima fyrir, ekki ríkissjóði, almenningi eða neinum sem starfar innan þess ramma sem verg landsframleiðsla nær utan um.

Þessir hópar tala — og aftur fjalla ég í þessari ræðu minni bara um þingmenn Samfylkingarinnar í þessu samhengi — ég leyfi mér að segja, með fruntalegum hætti um þá sem þeir segja að gefi eftir skatttekjur upp á milljarða, að útgerðarmönnum séu gefnir milljarðar á milljarða ofan, hátekjumönnum séu gefnir milljarðar á milljarða ofan, og svo mætti lengi telja. En í þessari umræðu þegir þessi sami hópur þunnu hljóði, alveg eins og hann leggur sig.

Hv. formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, er á meirihlutaálitinu. Maður verður að gefa sér að hann styðji málið eins og það liggur fyrir, ásamt því þunnildi sem meirihlutaálitið er, til viðbótar við frumvarpið sjálft.

Fyrir bærilega talnaglögga menn og konur er þetta einhvers lags tvískinnungur, sem er alveg óþolandi að hafa ekki haft neitt tækifæri á að ræða og eiga orðastað um við þann stærsta af samfylkingarflokkunum fjórum í stjórnarandstöðunni, augljóslega vegna þess að hópurinn hefur ekki látið sjá sig. Ég man bara ekki eftir að hafa séð neinn Samfylkingarmann í salnum allar þessar 13 klukkustundir. Það er möguleiki að hv. þm. Oddný Harðardóttir hafi skotist aðeins hér inn, en það var þá í hálfgerðri mýflugumynd. Hér er í engu gefið færi á því að eiga samtal við þennan hóp sem gengur jafn hart fram og raunin hefur verið, gagnvart öðrum í þessum sal. Ég held að við verðum að gera kröfu um að í svona umfangsmiklum, flóknum, stórum og mikilvægum málum sé það sjálfsögð krafa að menn fái tækifæri til að eiga orðastað við þá sem standa að baki máli eins og þessu, þar sem svo virðist vera af nefndarálitinu að allir þingflokkar nema Miðflokkurinn standi heils hugar þar á bak við. En það eru allir í felum.