149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þetta sjónarmið hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um mál sem er þess eðlis sem hér um ræðir, bæði hvað eðli, umfang og mikilvægi varðar, ef það á að verða eitthvert norm að slíkt mál rúlli í gegn með einni sjö mínútna ræðu og annarri sex mínútna ræðu og síðan séu í báðum tilvikunum þeir sem ræðurnar flytja hlaupnir úr húsi, alla vega úr salnum. Ég ætla ekki að gera hv. þm. Óla Birni Kárasyni það upp að hann hafi hlaupið úr húsi, ég veit að hann gerði það ekki, en hann fór alla vega úr salnum og tók ekki þátt í umræðunni. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Varðandi það hvort staðan sé þannig að þingmenn heilt yfir átti sig ekki á stærð og mikilvægi málsins þá grunar mann að það sé hluti af vandamálinu án þess að maður þori að slá því föstu. En það er alla vega þannig (Forseti hringir.) að athyglin og umræðan sem málið hefur fengið er algjörlega úr samræmi við undirliggjandi mikilvægi þess.