149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég man þá tíð fyrir sex árum síðan eða svo, að til umræðu í þinginu var breyting á veiðigjöldum, ekkert ósvipuð þeirri sem unnin var hér í haust. En þeir sem ekki voru á því á þeim tíma að breyta veiðigjöldum til þess vegar sem þá var gert, höfðu uppi í ræðustól Alþingis spurningu til okkar hinna sem hljóðaði einhvern veginn svona: Hverra hagsmuna er verið að gæta og hvaða hagsmuni er verið að verja? Það lá í orðanna hljóðan að þeir sem vildu á þeim tíma breyta þeim lögum sem þá giltu, eða réttara sagt setja lög svo hægt væri að innheimta veiðigjöld, væru að ganga erinda einhverra annarra sem ættu hagsmuna að gæta.

Í stuttu máli sagt var það látið óátalið og er enn fram á þennan dag, vegna þess að ég hef enn þá heyrt þennan söng öðru hvoru þegar stór mál ber á góma hér.

Í þessari umræðu hefur þó ekkert slíkt verið sagt. Ekkert. Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni, sem flutti hér ágæta ræðu, að það veldur nokkrum áhyggjum þegar mál af þessari stærðargráðu fá að fara gjörsamlega órædd í gegnum þingið. Þá á að nota þingið og þingmenn alla sem nokkurs konar afgreiðslubúr eða stimpilpúða. Það verður þá að víta mig fyrir þessi orð ef þau eru ósæmileg, en það er akkúrat það sem verið er að reyna að gera nú með því að þetta mál fari gjörsamlega órætt í gegnum þingið.