149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að byrja á endanum, ef svo má segja. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvað það getur verið sem getur útskýrt hvers vegna menn lyppast svona fullkomlega niður í lokahluta aðgerðaplansins. Það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom inn á er auðvitað hárrétt hvað það varðar, þetta er algjörlega óútskýrt. Við verðum, það er bara sanngjörn krafa, að fá útskýringu á því hvers vegna þessi ákvörðun er tekin. Það er ekkert í nefndarálitinu, það er ekkert í frumvarpinu, það er ekkert í ræðu hæstv. fjármálaráðherra og það er ekkert í ræðu framsögumanns nefndarinnar sem skýrir þetta. Bara ekki neitt.

Síðan að varaþingmanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Einari Kárasyni. Ég verð að biðja hann afsökunar á að hafa gleymt honum þegar ég reyndi að rifja upp viðveru Samfylkingarfólks í dag, en hv. þingmaður var auðvitað og fór ekkert í grafgötur með það að efnislega sagðist hann vera alveg úti að aka. Það voru svo sem fleiri í salnum sem töldu sig vera svolítið á þeim stað með málið, vegna þess að svör fengjust ekki við sanngjörnum og eðlilegum spurningum. En hversu upplýstur hann var eftir að hafa hlustað á okkur á ég erfitt með að dæma um, en það var alla vega alveg augljóst að hv. þm. Einar Kárason hafði ekki fengið neina aðstoð úr sínum eigin þingflokki hvað það varðar að greina málið og átta sig á meginatriðum þess.