149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég bar upp spurningu til forseta Alþingis rétt áðan í fyrri beiðni minni um að taka til máls undir liðnum fundarstjórn forseta. Ég spurði forseta Alþingis hvort það væri í lagi að þjófkenna menn úr ræðustól Alþingis og það má líka velta fyrir sér hvort það sé í lagi að gera það bara almennt í sölum Alþingis, á nefndafundum eða einhvers annars staðar í húsakynnum Alþingis. Ég spurði líka hvort það væri í lagi að saka þingmenn um að nota stöðu sína til að skara eld að eigin köku eða til að gæta hagsmuna fjölskyldna, ætla að bæta því við hér. Ég var ekkert að spyrja um almennar leiðbeiningar forseta Alþingis til annarra forseta. Ég var að spyrja hvað forseti Alþingis, einn af handhöfum forsetavalds á Íslandi, teldi að mætti segja í þessum ræðustól. Ég held að það væri ágætt að fá leiðbeiningu frá forseta um það. Það er hægt að nota þá leiðbeiningu til þess að eitt gangi yfir alla.