149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Maður veltir fyrir sér hvort við séum komin á þann stað í málinu að það sé orðið ljóst, og kannski hefði okkur átt að vera það ljóst fyrir löngu, að ekki mun takast að fá svör við þeim spurningum sem við höfum borið upp. Þá er ekki um annað að ræða en að bíða og sjá hvort menn skila einhverjum svörum í nefndarvinnunni milli 2. og 3. umr.

Ég held hins vegar að við hljótum að reyna áfram að fá svör frá þeim fáu þingmönnum sem eru í húsi. Það er orðið býsna fámennt, enda sjálfsagt einhverjir farnir að huga að því að fara í ræktina fyrir nefndafundi í fyrramálið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það geti verið að mál þetta sé þannig vaxið að það borgi sig hreinlega að reyna að fá því frestað, meira heldur en bara á milli umræðna, þar sem við höfum ekki fengið svör við neinum af þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram.

Manni finnst nú frekar en hitt, þegar líður á umræðuna og fleiri vangaveltur og spurningar koma fram, að málið sé í rauninni stærra en ætla mætti í upphafi. Þar af leiðandi sé eðlilegt að gefinn verði enn lengri tími en bara einn nefndarfundur milli umræðna til að fara yfir málið.

Auðvitað eru þetta vangaveltur, hv. þingmaður, um að við séum í þeirri stöðu. En meðan við fáum ekki svör er ekkert að því að velta vöngum yfir því hvað snýr upp og hvað niður í þessu og hvernig hlutirnir eigi að vera.