149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er ágætishugmynd hjá þingmanninum, að doka með þetta þar til fjármálaráðherra getur tekið þátt því að ekki virðast aðrir þingmenn vera, ja, ég ætla ekki að fullyrða um það því að þá væri óvarlega talað, en svo virðist í það minnsta að einhver upplýsingaskortur sé til annarra þingmanna um málið, hvort sem það er frá fjármálaráðherra eða annars staðar frá.

Fjármálaráðherra er náttúrlega hinn vænsti maður og hefur örugglega reynt að gera sitt besta til að upplýsa þingmenn sína um málið. En einhvers staðar hefur eitthvað lent milli skips og bryggju. Í það minnsta hafa viðkomandi þingmenn ekki haft færi eða ekki treyst sér til að yfirfæra þau svör til okkar sem við erum að kalla eftir.

Það er alltaf gaman og ánægjulegt að eiga orðastað við fjármálaráðherra, skeleggur, heiðarlegur og góður maður sem gott er að tala við. Þetta er því ekki vitlausasta hugmyndin sem við höfum heyrt í kvöld, hv. þingmaður.