149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Af því að hv. þingmaður nefnir tilraunir þessara aðila til þess að hafa áhrif á íslenskar alþingiskosningar tel ég rétt að setja það í samhengi við það hvenær þessir atburðir urðu. Það var þegar menn sáu fram á að hægt væri að ná stefnubreytingu akkúrat varðandi þau mál sem við erum að fjalla um núna. Svo mikilvæg töldust þessi mál þessum aðilum og það að ná fram stefnubreytingu stjórnvalda í þeim málum að þeir voru reiðubúnir að reka áróður í aðdraganda kosninga með algjörlega fordæmalausum hætti. Þá hlýtur það að vekja ákveðnar spurningar um hvort þessi áróður hafi skilað árangri. Það er a.m.k. ljóst að stefnan sem nú er boðuð og það frumvarp sem við ræðum hér er mun frekar í takt við það sem þessir aðilar óskuðu eftir en það sem var í gildi hjá þeim stjórnvöldum sem voru áður við völd.