149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna því og þakka fyrir það að í salnum sitji hæstv. iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, sem ég geri ráð fyrir að sé starfandi fjármálaráðherra. Vonandi mun hæstv. fjármálaráðherra blanda sér í umræðuna og reyna að leiða okkur fyrir sjónir hvað stjórnvöldum gengur til með þessu frumvarpi. Hvað gengur stjórnvöldum til með því að hverfa frá þeirri stefnu sem hafði verið mótuð sem hluti af heildaraðgerðum og lá alveg skýrt fyrir hvernig ætti að útfæra?

Ég hef heyrt út undan mér að sumum þingmönnum, sem hafa kannski ekki komið í umræðuna, þyki þetta flókið mál. Þótt ég eigi eftir að fjalla um allnokkur atriði sem tengjast því beint, eins og seinni einkavæðingu bankanna, málefni Arion banka o.fl., eins og ég boðaði í gærkvöldi eða nótt, ætla ég að nota þessa ræðu til að reyna að einfalda málið. Þetta er gríðarlega stórt mál, bæði stórt hagsmunamál fyrir samfélagið en líka mikið prinsippmál.

Ég man eftir sams konar umræðu um að við værum að gera of mikið úr of flóknum hlutum sem menn skildu kannski ekki alveg hvernig vörðuðu almannahag þegar við vorum að undirbúa haftalosunaðgerðirnar sem svo voru kynntar 2015. En raunin varð sú að afraksturinn varðaði heldur betur almannahag og gjörbreytti í raun efnahagsástandi í íslensku samfélagi til hins betra. Á sama tíma, bæði við vinnslu þeirra tillagna og þegar þær voru kynntar, heyrði maður viðhorf, eins og birtust hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni sem ætlar sem betur fer að koma í andsvar við mig á eftir, þess efnis að stjórnvöld væru á einhvern hátt að leggja til eignarnám, eignaupptöku. Í því fólst mikill grundvallarmisskilningur. En lykilatriðið í því, eða eitt af þeim, ein meginástæðan fyrir því að það var aldrei, ekki með nokkru móti, hægt að kalla þær aðgerðir eignarnám var að gætt var jafnræðis.

Aðgerðirnar voru kynntar með þeim hætti að allir þyrftu að leggja sitt af mörkum til þess að hægt væri að ráðast í aðgerðir sem svo myndu reynast vel fyrir alla. Þar af leiðandi var ekki hægt að bjóða upp á þann möguleika að þeir sem svo neituðu að taka þátt í þeim aðgerðum yrðu verðlaunaðir sérstaklega, ekki hvað síst vegna þess að þær aðgerðir voru einmitt ekki eignarnám. Þetta voru aðgerðir þar sem allir lögðu sjálfviljugir sitt af mörkum til að hægt væri að ráðast í aðgerðir sem allir nytu góðs af, nema auðvitað ef stjórnvöld vikju með því að verðlauna hinar svokölluðu eftirlegukindur. Lögð var mikil áhersla á mikilvægi þess að koma í veg fyrir að þær yrðu til.

Þess vegna er svo mikið prinsippmál að stjórnvöld hverfi ekki frá þeirri stefnu sem var mótuð og var skýr og refsi þeim sem voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum en verðlauni þá sem voru ekki tilbúnir að taka þátt í efnahagslegu endurreisninni.

Eins og ég nefndi er þetta líka mikið efnahagslegt hagsmunamál því að, líkt og kom fram í greinargerð Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og Hersis Sigurgeirssonar þar sem þeir reyndu að leggja mat á kostnaðinn við efnahagshrunið, ef Seðlabankinn hefði þó bara fylgt eftir því sem kynnt var sumarið 2009 varðandi aflandskrónurnar og náð tilætluðum árangri í því hefði það skilað 86 milljörðum kr. Auðvitað er ekki öll upphæðin undir lengur, þetta voru 319 milljarðar í upphafi, aflandskrónurnar. En eitt skyldi líka yfir alla ganga. Ef því hefði verið fylgt eftir hefði árangurinn í júní 2016 numið u.þ.b. 86 milljörðum, samkvæmt þessu mati.

Hér er hins vegar verið að fórna 20–30 milljörðum. Það er ekki gott að setja nákvæma tölu á það en ljóst er þó að efnahagslega fórnin er veruleg en hún leggst ofan á prinsippfórnina.