149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni þótt við séum ekki orðnir alveg sammála enn sem komið er. Það er hins vegar rétt hjá honum að aðgerðirnar á sínum tíma byggðust á neyð, en einmitt af þeim sökum var svo mikil áhersla lögð á það sem ég rakti hér áðan, að eitt skyldi yfir alla ganga og ekki væri boðið upp á möguleikann á að einhverjir ákvæðu að halda sig til hlés, taka ekki þátt í þessum nauðsynlegu aðgerðum og fleyta rjómann ofan af síðar. Þetta var alveg skýrt. Það var gengið frá því með hvaða hætti yrði komið í veg fyrir að menn gætu gert það sem þeir ætla sér núna. Þeir reyndu að komast undan þessu með ýmsum leiðum, m.a. með kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og þar varð niðurstaðan alveg skýr. Ég vitna hér beint í frétt frá stofnuninni frá því í lok árs 2016:

„Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið athugun á tveimur málum vegna kvartana varðandi íslenska löggjöf um eign á aflandskrónum. Lögin sem kvartanirnar snúa að eru liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að losa fjármagnshöft. ESA telur lögin vera í samræmi við EES-samninginn.“

Þetta var allt í samræmi við lög. Og hvað var í samræmi við lög? Jú, heildarplanið, að fylgja því eftir í heild og láta eitt yfir alla ganga. Þess vegna er ekki hægt að verðlauna þá sérstaklega núna sem ekki hafa verið reiðubúnir að taka þátt í planinu. Hvernig á að fá þá til þess? Jú, einfaldlega með þeim hætti sem lagt hefur verið upp með og gerist að óbreyttu; að eignir þeirra í aflandskrónum, sem eru annað en hefðbundnar íslenskar krónur, færist yfir á lokaðan reikning og verði það þangað til þeir eru reiðubúnir að taka þátt í því með öðrum að gera þennan efnahagslega viðsnúning mögulegan, sem hefur náðst, vissulega.