149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi er ekki verið að beita neinum nýjum úrræðum. Þetta er einfaldlega framhald af þeim úrræðum sem gripið var til þegar neyðin var til staðar og lá fyrir að allir myndu þurfa að taka þátt. Það er auðvitað alveg fráleitt að setja þetta í samhengi við eignaupptöku. En eins og ég rakti stuttlega í ræðu minni áðan er það ekki í fyrsta skipti því að þegar þessar aðgerðir voru kynntar og raunar áður, þegar verið var að ræða það að ráðast þyrfti í slíkar aðgerðir, voru þeir til og voru kannski allmargir sem voru tilbúnir til að halda fram þessum málflutningi, að í aðgerðunum í heild fælist eignarnám, m.a. gagnvart slitabúunum — þau voru dugleg og fulltrúar þeirra að tala um eignarnám. Það liggur hins vegar fyrir að svo var ekki. Um það hefur verið dæmt fyrir dómstólum og ESA hefur skilað sinni niðurstöðu eins og ég rakti áðan.

Við hv. þingmaður höfum auðvitað verið ósammála um eitt og annað, en ég hefði vonast til að hann væri þó búinn að læra það af reynslunni að besta leiðin til framtíðar til að gera Ísland að vænlegum fjárfestingarkosti er ekki að láta undan óbilgjörnum (Forseti hringir.) kröfum þeirra sem ganga alltaf eins langt og þeir mögulega geta.