149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er rétt. Í rauninni er bara jafnt og þétt, undanfarin tvö ár eða svo, verið að þynna út það sem lagt hafði verið upp með en ekki að setja á menn nýjar kvaðir.

En hvernig má skýra þetta í einni setningu? Ég held að það megi jafnvel skýra inntak þeirra áforma sem þetta byggir allt á í tveimur orðum, þ.e. endanleika og trúverðugleika. Það sem ég á við með því er að þegar áformin voru kynnt fólu þau í sér tiltekna endanlega niðurstöðu og á því byggðist trúverðugleikinn, að stjórnvöld væru búin að kynna það hvernig leyst yrði úr málunum í heild.

Því er svo mikilvægt að klára heildarlausnina vegna þess að ella fer trúverðugleikinn, þá er enginn endanleiki og þá er trúverðugleikinn farinn, trúverðugleiki sem íslensk stjórnvöld verða að hafa til að bera í hagsmunagæslu fyrir landið. Ef menn gefa jafnt og þétt eftir og sýna fram á að aðferðir, eins og þessir aðilar hafa notað, jafnvel kosningaáróður til að reyna að hafa áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda, að slíkt geti virkað og ef menn sýna viðsnúning í stefnu stjórnvalda frá því sem hafi verið kynnt sem endanlegt er trúverðugleiki stjórnvalda verulega skaddaður og það mun gera þeim miklu erfiðara fyrir næst, hverjir sem verða við stjórnvölinn, að leggja fram áætlun sem byggir á trúverðugleika vegna þess að menn munu hafa efasemdir um endanleikann.