149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Mig langar til spyrja þingmanninn út í andsvar hans hér áðan þar sem hann reyndi að ramma málið inn í tvö orð; endanleika og (SDG: Trúverðugleika.) trúverðugleika. Það er kannski endanleikinn sem mig langar að hafa fókus á hérna. Það sem ég hef haft miklar áhyggjur af í þessari umræðu eru skilaboðin sem við erum að senda frá okkur, sem stjórnvöld senda sem gæslumenn íslenskra hagsmuna gagnvart síðari tíma málum. Þetta er ekki síðasta málið þar sem þarf að standa í vörn fyrir íslenska hagsmuni. Nú bíða mál sem snúa að frystiskyldu á kjöti, þriðji orkupakkinn og það er fullt af málum í pípunum sem við vitum af nú þegar og það eiga eftir að koma upp óteljandi mál sem við sjáum ekki fyrir núna þar sem skiptir gríðarlega miklu máli að hagsmunagæslumenn landsins standi almennilega í lappirnar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í hvaða áhrif hann telji þessa merkjasendingu sem frá stjórnvöldum fer núna með þessari eftirgjöf hafa á framtíðarstöðu okkar í samningaviðræðum við mótaðila, hverrar þjóðar eða gerðar sem þeir kunna að vera.