149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hv. þingmaður getur væntanlega rétt ímyndað sér það hvort menn fylgist ekki með því hvernig íslensk stjórnvöld halda á hagsmunagæslu fyrir þjóðina í heild, hvernig þau verja þjóðarhagsmuni. Það var einungis eftir að menn voru orðnir sannfærðir um það 2015 að íslensk stjórnvöld myndu standa í lappirnar að þeir voru reiðubúnir að gefa eftir eins og nauðsynlegt var. Fram að því, af því að hv. þingmaður nefnir t.d. þennan þriðja orkupakka Evrópusambandsins og landbúnaðarmálin, höfðu margir reitt sig á það að það yrði annaðhvort gefið eftir á sama hátt og menn leituðust við að gera í Icesave-deilunni, sem hafði sett ákveðið fordæmi hvað þau stjórnvöld varðaði, eða að Evrópusambandsaðild yrði lausnin. Þá hófst bara biðin eftir því að Evrópski seðlabankinn kæmi með peningana til að borga menn út úr höftum, með svipuðum hætti en þó aðeins annarri aðferð en í Grikklandi. Þetta þurfti að yfirvinna, sýna fram á að ný stjórnvöld væru komin með nýja stefnu.

Af þessu leiðir að vonandi, jafnvel þó að þetta mál færi á versta veg, verður að einhverju leyti a.m.k. hægt að endurvinna trúverðugleika íslenskra stjórnvalda þegar kemur að grundvallarhagsmunagæslu fyrir þjóðina með því að skipta um stjórnvöld.