149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Mig langar að koma örstutt inn á atriðið hjá honum sem snýr að eftirgjöf tekna í samhengi við umræður um fjármálaáætlun og fjárlög og þau miklu slagsmál sem eru þar uppi um staka milljarða hér og staka milljarða þar.

Hefur hann orðið vitni að viðlíka sinnuleysi gagnvart svo stórum upphæðum á undanförnum árum í þingstörfunum? Ef við horfum til þeirra samninga sem gerðir voru 2017 við kröfuhafa upp á 90 milljarða og notumst við það afsláttarverðhlutfall er gólfið, má segja, í eftirgjöfinni sirka 13,6 milljarðar, en miðað við 190 kr. töluna sem átti að vera besta verð til krónueigenda eru þetta 23 milljarðar. Hefur hv. þingmaður orðið var við svona lítinn áhuga á svo stórum tölum?