149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svarað því til af fyllsta heiðarleika, hv. þingmaður, að ég á ekki svar við því hvers vegna menn koma ekki hingað og mæla þessu máli bót. Stuðningsmannahópurinn virðist vera ansi drjúgur. Það hvernig menn sáu fyrir sér að málið færi í gegnum þingið með algjörri lágmarksumræðu, svo vægt sé til orða tekið, er auðvitað þeirrar gerðar að maður hefur klórað sér í kollinum yfir því. Í því samhengi vil ég ekki ætla mönnum neitt illt en spyr hvort það sé af því að þingmenn hafi ekki sett sig inn í málið eða telji bara að nú sé komið nóg, það sé búinn að vera þessi ævintýralegi árangur sem náðist með haftalosunarferðalaginu sem hófst 2015, hvort menn upplifi þann ævintýralega árangur sem náðst hefur nú þegar bara nægjanlegan og að menn séu saddir. Ég veit það ekki en mér þykir mjög miður ef þingmenn telja sig þess umkomna að gefa frá sér umtalsverðar upphæðir úr ríkissjóði sem þangað ættu með réttu að skila sér samkvæmt heildarplaninu frá 2015 — á sama tíma og við erum öll meðvituð um að það vantar pening hér og pening þar og að mörg góð mál klárast fyrir 1–3 milljarða.

Hérna erum við að horfa á eftirgjöf á mögulegu fjárflæði inn í ríkissjóð upp á 13,6–23 milljarða — 23 ef notast er við 190 kr. viðmið fyrir evru sem er viðmiðið sem var notast við 2015.

Spurt er hvað valdi. Ég treysti mér ekki til að geta í þær eyður því að engin skilaboð fáum við í þeim efnum í ræðum eða andsvörum hér í salnum.