149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Fyrst vil ég fá að lesa upp úr frumvarpinu sem liggur fyrir, 6.4. Áhrif á ríkissjóð, með leyfi forseta, fyrst hv. þingmaður kom inn á það. Þetta er ekki löng klásúla.

„Hvorki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem í frumvarpinu felast hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs né gjöld. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.“

Ég verð að viðurkenna að ég skil þessa málsgrein ekki og vil svo gjarnan fá einhverjar útskýringar á henni, annaðhvort frá framsögumanni nefndarálits meiri hlutans eða starfandi fjármálaráðherra. En það er bara einföld skynsemisskoðun á þessum texta, samanborið við efnisatriði málsins, sem orsakar að þetta gengur hreinlega ekki upp.

Hvað varðar það síðan að í engu sé reynt að gera grein fyrir hver fjárhagslegu áhrifin eru í frumvarpinu, greinargerð eða nefndarálitinu, lýsi ég hér enn og aftur furðu minni á því hversu ódýrt er skautað fram hjá slíkum atriðum og í raun ekkert komið inn á þau. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, eins og ég kom inn á nokkrum sinnum í gær og nótt, að segja: Þið, ágætu þingmenn Miðflokksins, getið bara fundið svör við þessum spurningum ykkar í frumvarpsplagginu eða nefndarálitinu eða þeim ræðum tveimur sem haldnar hafa verið af fulltrúum stjórnarflokkanna — þegar staðreyndin er sú að í hvorugu þessara plagga og í hvorugri þeirra ræðna sem fluttar voru kemur neitt af þessum atriðum fram. Það er auðvitað mjög miður og vart boðlegt.