149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá loksins að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar fékkst til að halda ræðu um málið fengum við að hlýða á einkar sérkennilega ræðu sem snerist framan af einkum um það að menn annaðhvort töluðu allt of mikið um málið eða hefðu talað allt of lítið um málið, ekki á þeim vettvangi þar sem hv. þingmaður vildi ræða það.

Ég hef áður rætt það við hv. þingmann og hann þekkir það vel að vegna veikinda missti ég af nefndarfundum þar sem þetta var rætt, eins og kom meira að segja fram í fjölmiðlum. En ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja þá sögu dagsetninga sem hv. þingmaður fór yfir. Það verður hins vegar kannski tækifæri til þess í ræðu hér á eftir því að það er áhugaverð saga í sjálfu sér.

Ég þarf ekki að heyra matreiðslur embættismanna eða markaðsmanna á því hvers vegna þeir vilji fá þetta mál samþykkt. Ég hef hlustað á slíkar ræður frá því að stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byrjaði að reyna að leysa úr haftamálum árið 2013 og menn fundu því alltaf allt til foráttu að eitthvað yrði gert sem félli einhverjum á markaði ekki í geð og væri til þess fallið að svekkja fjárfesta. Þetta er umræða sem hefur reyndar átt sér stað miklu lengur í íslenskum stjórnmálum, a.m.k. frá því að átökin um Icesave byrjuðu. Ég þarf ekkert að hlusta á þetta eina ferðina enn.

Ég var að vonast til þess að hv. þingmaður myndi færa okkur einhverjar pólitískar skýringar, sem engar hafa verið, á því hvers vegna stjórnvöld vilja hverfa frá því plani sem lagt var upp með 2015, hafa í raun verið að snúa því upp í andhverfu sína með því að verðlauna sérstaklega þá sem hafa ekki verið tilbúnir að leggja sitt af mörkum til efnahagslegrar uppbyggingar og ætla nú að hnýta á það endahnútinn með afléttingu (Forseti hringir.) hafta af eftirlegukindunum, sem svo voru kallaðar þegar áformin voru kynnt í upphafi.